Hnýsni í einkareikningi

Þetta vandamál er nú hægara sagt en gert að leysa.  Ég myndi benda þessari konu á að tala við kvennaathvarfið og biðja þá um að hlutast um málið.   Þeir geta beiðið persónuvernd að skoða þetta.   Persónuvernd ætti að hafa möguleika til að snúa sér að tölvudeild bankans og skoða hvort fyrrverandi sambýlismaður hafi verið að skoða hennar reikninga.   Um allt svona er haldin ítarleg loggskrá og hægt að rekja hvert einasta atriði.   Ef viðkomandi hefur skoðað hennar reikning, þá gæti hann verið í mjög alvarlegu máli.   Ef ekki þá þarf hann ekkert að vita og þetta þarf ekkert að koma inn á borð útibússtjórans.
Ég hvet hana til að snúa sér til kvennaathvarfsins, þeim ber að gæta fyllsta trúnað gagnvart henni og aðhafast ekkert nema með hennar samþykki.
mbl.is Skoðar bankareikning án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handboltinn ný útflutningsvar

Frammistaða Íslendinga í handbolta er eitt af því fjölmörgu sem gerir ísland þekkt meðal þjóða heimsins. Þetta gerir það að verkum að fleiri fara að velta fyrir sér Íslandi sem ferðamöguleika og á sennilega eftir að auka hlut ferðamála (tourisma) í þjóðartekjum Íslendinga og það eru verðmæti nú á þessum krepputímum.
mbl.is „Ísland tekur Frakkar á bólið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf Ramses bara að læra handbolta

Eins og leið íþróttamanna hefur verið greið inn í landið, þá væri það ekki vitlaust fyrir Paul Ramses að læra handbolta, og bara vera svolítið góður í því.    Ætli hann sé ekki góður að hlaupa, hefur hann ekki svo oft orðið að taka til fótanna.    Ef hann á erfitt með að verða góður þá getur hann orðið góður í klappliðinu og fengið konu sína með í það, hún gæti jafnvel orðið klappstýra.
mbl.is Eiginkona Paul Ramses grét
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðar pillur og Dagur

Það er lán að það er Dagur sem ætlar að skrifa upp á rauða pillu gegn rugli.    Því annað eins Rugl hefur ekki verið í borgarmálum og eftir að R-listinn (lesist Rauði -listinn) tók við borgarmálum.   Stjórnunarkostaður hefur tvöfaldast, húsnæðis verð hefur tvöfaldast aðallega vegna okurverðs R-listans á lóðum.   Það ætlar ekki að ganga til baka þótt harðnar á dalnum, því með auknum tekjum þá jukust útgjöldin.   Samgöngumálin eru í ógöngum og umferðaröngþveitið hefur tvöfaldast.    Það er lán að Dagur getur fengið mörgum sinnum  tvöfaldan skammt af Rauðum pillum gegn R-Rugli.

Það er aftur á móti alþekkt og mikil reynsla af því að bláu pillurnar gefa kraft og potens. 


mbl.is Rós og ráð gegn rugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorphirða boðin út

Nú loga allar símalínur hjá Útvarpi sögu vegna hugmynda borgarstjórnar um að bjóða út sorphirðu.
Allir mæra opinbera sorphirðu Reykvíkinga núna en geta því miður ekki rætt um kostnaðinn.   Nú er það hugmyndin með  útboði að lækka kostnaðinn.   Það er jú staðreynd að peningum sem varið er í sorphirðu verðu ekki varið í annað.   Ég læt mig ekki dreyma um að útsvarið eða fasteignagjöldin lækki, það virðist vera náttúrulögmál að opinberir skattar hækki.   Ef við getum eytt minni peningum í sorphirðu þá getum við eytt meiri peningum í annað eins og biðlaun borgarstjóra eða borgafulltrúalaun, kannski eitthvað pínulítið til barna og gamalmenna. 

 Það sem skiptir mestu máli þegar stór og sérhæfð verk eru boðin út,  er að skipta því upp í nokkur misstór verkefni, eins og t.d. misstóra borgarhluta, þannig að sá lægsti fengi t.d. 75% en sá næst lægsti fengi 25%.  Ef verkið væri mjög stórt eins og sorphirða allra borgarinnar þá þarf jafnvel að skipta þessu upp í fleiri flokka eins og t.d.  60%,   30% og 10%.    Það má gagnrýna það að láta þann sem er lægstur fái ekki allt verkið, og þannig spara aukakostað af hinum verktökunum.   Sá sem er lægstur myndi einnig beita þeim rökum að hann gæti verð enn lægri ef hann hefði fengið allt verkið.    Vandinn er bara sá,  verkið er mjög sérhæft, það er t.d. mjög hæpið að hægt sé að nýta tæki og tól við sorphirðu við önnur verk.   Um leið og sá sem er lægstur er kominn inn, þá er hann kominn með verulegt forskot við næstu útboð og erfitt fyrir nýja að komast inn, og þar með er ávinningurinn af samkeppni fokinn út í veður og vind.   Með því að hafa minni verktaka með, þá eiga þeir auðveldara með að bæta við sig verki við næstu útboð og einnig fyrir nýja að komast inn í minnsta hlutann.   Sá verktaki sem fengi minni hluta en síðast, þarf þá heldur ekki að afskrifa öll sín tæki og tól, því hann fengi notað elstu tækin í varahluti eða nýtt þau með örðum hætti í rekstrinum.  Rök stærsta verktakans um hagkvæmni stærðarinnar sem hann telur sig fara á mis við, halda ekki þegar verk eru orðin mjög stór og ekki er möguleiki á  samnýtingu tækja og tóla.    Þannig verður samkeppnin virk við hvert útboð.    Reynslan af sameiningu fyrirtækja er oftast minni samkeppni en ekki að verð þeirra lækka heldur öfugt.   Sennilega er verð á flugmiðum og fragt milli landa besta dæmi þess að sameining styrkir hluthafa á kostað neytenda

Mig minnir að skyggniefni ríkisspítalanna (ríkisinnkaup) (notað við röntgenmyndatökur) hafi verið boðið út, við útboðið lækkaði kostnaður verulega, en svo eftir nokkur ár, þá var ástandið verra en í upphafi. 


Verðtryggin eða hærri vextir

Það ríður ekki við einteyming umræðan um verðtrygginguna.  Guðmundur Ólafson hefur verið ötull málssvari verðtryggingar í þáttum Sigurðar á útvarpi Sögu á föstudögum milli kl 09 -11.   Svo hringja menn í Sigurð alla næstu vikur og úthúða verðtryggingunni.   Það kemur aldrei fram, að ef við höfum ekki verðtryggingu þá þarf að hafa vexti sem eru nokkru hærri en verðbólgan.   En það er mikill munur á því hvernig verðbætur og vextir eru meðhöndlaðir.    Í fréttatíma stöðvar 2 miðvikudaginn 6. ágúst tók steininn úr.   Þar var tekið dæmi um leikskólakennara sem tæki 20.000.000 íbúðarlán í 13,6 % verðbólgu  og sagt að verðbæturnar á þetta lán væru 2.720.000 og svo var haldið áfram að spinna með reiknisdæmið. sagt var að ef hún væri með 201.442 eftir skatt þá var fullyrt að hún væri 13,5 mánuði að greiða verðbæturnar þótt launin færu ekki í neitt nema það.    Það sem fréttamanninum láðist að segja var að verðtryggingin leggst við höfuðstólinn og ef afborgunin er greidd mánaðarlega í 40 ár, þá er hún 41.667 kr og eftir eitt ár þá hefur þessi upphæð hækkað um 5.667 kr  og það tekur hana aðeins 4,8 klukkustundir (172 vinnustundir í mánuðinum) af mánuðinum að vinna fyrir þessum verðbótum að því tilskyldu að launin hafi ekki hækkað á þessu ár.

Það sem almenningur áttar sig ekki á, er að þegar við höfum hagvöxt þá gildir það svona almennt að laun vaxa meira en kostaður.   Þegar einhver fær lán, þá er það ígildis verðmæta, t.d. kaffipakka.   Ef ég lána manni 8 pakka með 0,5 kg í hverjum, þá ætlast ég til þess að hann skili mér sömu verðmætum að lánstíma liðnum, auk bóta til mín, sökum þess að ég varð að drekka vatn á meðan hann drakk kaffi.   Ef kaffipakkinn rýrnar í 0,4 kg (þeir pakkar eru til) þá ætlast ég auðvitað til þess að fá 10 pakka til baka auk leigunnar.   (í Noregi minnkaði bjórglasið úr 0,5 lítrum í 0,4 lítra í stað þess að hækka verðið) Þetta kemur því ekkert við hvort það er metuppskera eða uppskerubrestur í Brasilíu.    Nú er það svo að erfitt er að miða við eina ákveðna vöru og því er vísitalan notuð sem tekur til flestra verðþátta í lífi okkar.   Í gömlu lánskjaravísitölunni vógu laun 70% beint eða óbeint, svo það mátti alveg segja að þar hafi maður verið að lána manni vinnustundir, og það þá ekki ætlast til þess að hann greiddi meira til baka þótt hann hafi fengi launaflokkahækkun.    Vegna þessa þráláta misskilnings, þar sem menn sjá ekki að ef menn taka lán t.d. til íbúðakaupa, þá sjá menn bara það sem lánið hækkaði, en alls ekki það sem íbúðin hækkaði og enn síður það sem launin hækkuðu.

visitolur_3    Ég hef því tekið saman á eitt graf vísitölu launa frá því þegar hún var sett 100 þann 1. Jan 1989 og framfærsluvísitölu (lánskjara) setta á 100 á sama tíma.
   Hér má sjá að til langs tíma þá hækka laun meira en lífskostnaður, þótt það komi fyrir yfir styttri tímabil eins og núna þar sem laun lækki (standi í stað) á meðan kostnaður hækkar (meira).   Á þessum tæpum 20 árum hafa laun hækkað að meðaltali rúm 32% meir en skuldin.    Því tala engir um þetta.

 Vextir eru alltaf greiddir upp í lok ársins og ef við setjum 13,6% vexti á húsnæðislán leiksskólakennarans þá hefði hún(hann) orðið að greiða 2.720.000 kr. bara vegna þessa og ætti þá eftir að greiða fyrir leiguna á peningnum (raunvexti ca 5%) og þótt öll hennar laun færu í það sem tæki yfir 13 mánuði þá væri áður en sá tími væri liðinn,  aftur fallnir á hana vextir, því þeir greiðast alltaf upp, (vextir og afborganir falla á 12 mánaða millibili).    Erlendis er til verðbótaálag á vexti sem hækkar heildar vextina sem nemur verðbólgu , en það er augljóst að það er ill framkvæmanlegt þegar verðbólga fer úr böndunum vegna þess hvernig vextir eru reiknaðir, greiðast allir upp eftir hvert lánsár, en leggjast ekki ofan á höfuðstólinn.   Skyldi fréttastofa Stöðvar 2 og Jón Magnússon hafa áttað sig á þessu.


Dómsréttlæti Björns dómsmálaráðherra

Það er einn af hornsteinum nútíma réttarríkis, er aðgreining löggjafavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.  Það er alveg ótrúlega erfitt að halda þessu aðgreindu, löggjafavaldið er alltaf að skipta sér að framkvæmdavaldinu, en það sem er sýnu verra er að framkvæmdavaldið er alltaf að skipta sér að dómsvaldinu, og þannig lengja sitt framkvæmdavald út fyrir sitt svið   Það er gömul og ný saga að framkvæmdavaldið (dómsmálaráðherra, lesist Björn Bjarnason) handvelji dómara.    Þetta er órtúlega mikilvægt fyrir framkvæmdavaldið, þegar þeir fara að úthluta vinum sínum lífsins gæðum á kostað þjóðarinnar.  Hér hafa kvótamálin varðað þessa leið framkvæmdavaldsins alla leið til Brussel.    Nú hafa mörg mál fallið framkvæmdamálinu í vil varðandi kvótamálið.   Mér er minnisstæt að fyrir all löngu var mál sem kallaðist Valdimars málið að mig minnir, og niður staðan í því var að allir væri jafnir fyrir lögum en útvaldir voru bara jafnari.    Einn mætur lögfræðingur skrifaði bók um hlutdrægni hæstaréttar, og framkvæmdavaldis valdi hann þá í hæstarétt (Jón Steinar)    Til þess að tryggja enn betur hlutdræg völd framkvæmdavaldsins, þá vill Björn nú auka völd lögreglunnar,  þar ber hæst möguleikar njósnadeildarinnar (lesist greiningadeild) til að hlera síma án þess að spyrja kóng eða prest, bara Björn Bjarnason eins og þeir spurðu áður Bjarna(son).    Það er alveg ótrúlegt hvað þessum manni dettur í hug að ganga á friðhelgi einstaklingsins.   Í dag er það dómari sem metur þörfina og vegna eðli málsins þá er ekki hægt að hlusta á sjónarmið þess sem á að hlera.   Því er það mjög mikilvægt að einhver gæti hagsmunar hans, og til þess er dómarinn.   Lögreglan þarf alltaf að rökstyðja og verja sín sjónarmið.   Þegar þeir þurfa þess ekki, þá fer þetta í þann farveg að grensurnar færast og það mjög hratt.   Þessa dagana er verið að afhjúpa hvernig hleranir voru misnotaðar hér á árum áður, bæði hérlendis og erlendis.   Þetta gerðist þrátt fyrir að dómarar áttu áð verja rétt þess sem var hleraður.    Það er ekki að sjá að dómarar hafi verði mikill tálmi í því, því þetta fór út í það að ekki bara hlera stjórnarastæðinga,  heldur líka ungt fólk með hlutverk.    Í gamla voru þetta vinstri menn, andstæðingar Víetnamstríðsins en núna eru þetta umhverfissinnar og friðarsinnar.    Það nýjasta í þessu máli er spurningin um það hvort lögreglan eigi að útskurða með nálgunarbann.   Nú ætla ég ekki að taka afstöðu til nýfallins dóms, en þar voru nokkur sjónarmið á ferðinni því dómurinn var klofinn,  og ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir því að þetta var ekki refsing mansins fyrir það grófa ofbeldi sem hann framdi, heldur var verið að skerða frelsi hans til fara um bæinn, sennilega eftir að hann hafi verið búinn að taka út sína refsingu.   Það er svo allt annað mál að refsingar eru almennt allt of lágar, bæði í kynferðis- og ofbeldisafbrotum og þar kemur til kasta löggjafavaldsins en hvorki dóms- né framkvæmdavaldsins.

Bankarnir og vaxtakjörin

Bankarnir hafa að undanförnu grátið mjög yfir lausafjárskortinum.    Gráta þeir hvað hæst vegna þess að lán sem þeir taka eru skammtímalán, en þeir lána út til húseigenda til lengri tíma (allt að 40 ár).     Gráta þeir ekki síst vegna hás skuldatryggingaálags.    Í bæði í fréttunum og í kastljósinu 7. ágúst kom fram að vextir á bæði erlendum og innlendum lánum hefur verið hækkað til viðbótar því sem gengishækkun eða verðtrygging hefur hækkað skuldarhöfuðstólinn.    Þetta eru sömu álögin og bankarnir lenda í, og enginn talar um það.     Bankarnir búa þó betur en innlendir lántakendur,  til að geta greitt hluthöfum arð og selt silkihúfunum sínum hlutabréf á hagstæðu verði, þá leggja þeir álögur vegna skuldatryggingaálagsins á sína lánþega.   Þeir eru aftur á móti fastir á króknum, þeir geta hvorki losað sig úr lánafjötrunum, né hækkað sína tekjustofna.   Það er greinilegt að bankarnir hafa bæði belti og axlabönd á sínum vöðlum og komast þurrum fótum í gegnum þennan ólgusjó.

Arkitekt þinglýsir lit á húsi

Í útvarpsþættinum hjá Sigurði G á Sögu 7. ágúst  hringdi Ingimundur og varði höfundarétt arkitekta mjög og nefndi annars vegar dæmi um hús sem vinur hans hafði teiknað og eigandinn hafði sett víravirki á.  Hann hafið samband við arkitektinn og viku seinna var víravirkið farið.    Hann nefndi annan sem lét þinglýsa litnum á húsinu.   Ég hélt ekki að einstrengingsháttur arkitekta gæti verið þvílíkur en hann hefur staðfest það.   Mun arkitektinn þá einnig skaffa litinn ef hann væri ekki framlengdur lengur.  Ég nefndii í bloggi mínu 1. ágúst sl. ýmis rök sem mæltu gegn því að höfundarétturinn ætti að ganga algjörlega yfir eignaréttinn.    Ingimundur nefndi að ekki mætti breyta málverki,  mér er mjög til efs að ég megi ekki breyta málverkum á mínum veggjum eða farga þeim, ég bara sel þau ekki sem verk upphaflegs höfundar, þótt þau væru betri eða verri á eftir.   Það sama á að gilda um húsbyggingar.   þegar ég kaupi teikningu af húsi, þá er ég ekki bara að kaupa útlit heldur líka úrfærslu á tæknilegum lausnum.   Höfundarétturinn ætti að takmarka rétt minn við að selja þetta hugverk, en ég ætti að geta gert hvað sem mér sýndist um þetta hugverk, jafnvel bæta tæknilegar úrfærslur á eigin húsi ef mér sýndist svo.


Fjárfestingabankar enn í hagnaði

Það hefur oft verið rætt mikilvægi þess að aðgreina starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka.  Þörfin á því kemur betur fram núna en nokkurn tíman áður.   Fjárfestingabankar hafa grætt á tá og fingri undanfarið og greitt stjórnendum svimandi upphæðir í laun og bitlinga.  Þetta gerðist á þeim tíma þegar blaðran var að blása út.   Svo fór loftið úr henni og hún féll saman.   Hreinu fjárfestingabankarnir eins og Exita, FL, Straumur tapa pappírspeningunum sem þeir voru búnir að vinna og jafnvel losa sig við leiðtogana.  Rekstrarbankarnir eru líka í fjárfestingum og búnir að tapa á þeim, en vegna fákeppni þá efla þeir bara kjarnastarfsemina (lesist hækki þjónustugjöldin) og hafa eftir allt enn hagnað svo stjórnendur þeirra geta áfram átt salt í grautinn.   Það er ljóst að það vantar stórlega samkeppni á íslenskan bankamarkað, svo þeir komi sér ekki saman um nær öll þjónustu gjöld eins og þeir hafa gert fram að þessu.

Meginreglan í fjárfestingum að ekki eigi að fjárfesta í meiru en þú getir tapað, þarf því ekki að gilda um Viðskiptabankana. 


Höfundaréttur arkitekta

Í útvarpi Sögu föstudaginn 1. ágúst sl fara þeir á kostum, Sigurður og Guðmundur að vanda.  Þar lýsti Guðmundur því yfir að honum þætti fáránlegt að eigendur húsa mættu ekki breyta húsinu, vegna höfundaréttarlaga.   Ég er Guðmundi svo hjartanlega sammála,  maður á að ráða yfir því sem maður á, hvort heldur það sé bók, mynd, garður eða hús.    Ef ég á bók, þá má ég skrifa í spásíur, ég má rífa úr henni síður.  Ég má mála á mynd sem ég á, ég má breyta garðinum sem ég á og er það mjög algent að menn planti eða rífa upp plöntu sem vaxið hefur upp í loftið.   Það sem ég má aftur á móti ekki gera er að selja þessi verk sem verk upphaflega höfundar, enda er ég búinn að leggja hönd á þau.   Nú gildir eitthver allt önnur regla um hús, það er ekki nóg með að ég megi ekki selja teikninguna sem ég borgaði fyrir, vegna höfundarréttarins, heldur nær þessi regla miklu lengra, ég má strangt til tekið ekki mála húsið í þeim litum sem ég vil, þótt allir í hverfinu hafi breytt litum á sínum húsum og mitt stingur í stúf við umhverfið.   En síður má ég breyta húsinu svo það henti betur þörfum mínum, sem hafa annað hvort breyst síðan húsið var byggt, eða ég keypt það af öðrum af því það féll þokkalega að mínum þörfum, eins og t.d. hverfi vegna skóla barna, skjól eða útsýnis, en húsið sjálft og innanbú hentaði miklu síður.   Þess ber þó að geta, að í lang flestum tilfellum þá samþykkja arkitektar breytingar og það heyrir til undantekningar að þeir hafni þeim.   Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi skipt sér að litavali húsa, þótt þeir hafi rétt til þess.

Ég er hjartanlega sammála Guðmundi Ólafssyni lektor, að þetta er fáránlegt og misskilningur á túlkun höfundaréttar. 


Að kasta stein úr glerhúsi

 

Nú þegar Agnes Braggadóttir hefur farið nokkuð miður góðum orðum um Árna Johnsen og Árni fer í mál, þá gildir samlíkingin að kasta steini úr glerhúsi betur við nú en oft áður.   Árni fór með sama sorakjaftinum og Agnes, um væntanlegan vegamálastjóra og ætlaði hann að að fara í mál við Árna.   Skyldi Árni vera að hefna sín á Agnesi.
Árna sárnaði sem von var, þessi ummæli Agnesar enda ekki nema von, hún hefði mátt vera orðvarari.   Meðal annars vitnaði hún í það að hann væri dæmdur glæpamaður.   Árna sárnaði þetta enda búinn að fá uppreisn æru, en það fékk hann til að geta boðið sig fram á þing.   Það er verra ef ekki má tala um staðreyndir í lífi hans vegna þessa,  þá þarf annað hvort að endurskoða lögin um uppreisn æru eða hverjir fá hana.   Ég hef meiri áhyggjur af þeim sem hafa skarað eld að sinni köku, án þess að hafa þurft að standa fyrir máli sínu.   Það var altalað, að Árni hefði verið óheppin, en hinir sluppu.   Svona almennt þegar menn hafa tekið út sína refsingu, þá á það að liggja að baki og það segir meira um þá ágætu konu Agnesi að vera að klifa á þessu, en um Árna.   Ég hef þó meir mætur á Agnesi en Árna, ég efast mjög um að hún hafi verið eins duglega að skara eld að sinni köku eins og Árni er og má í því nefna hamaganginn í honum vegna jarðgangnanna til eyja.


mbl.is Árni stefnir Agnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deiliskipulag heldur ekki, hvorki á Akureyri né annar staðar

Það var nokkuð dæmigerð fréttin hjá ruv mánudaginn 21. júli sl af Guðmundi Karli Tryggvasyni sem hyggst fara í mál við Akureyrabæ vegna breytingar á deiliskipulagi.    Það eru bara þrjár tegundir af grænum svæðum í borgum og bæjum, þar sem hægt er að reikna með að ekki verði byggt á og það eru kirkjugarðar, öskuhaugum og svo gólfvöllum.     Ástæðan er sú að verulegum peningum er varið í flokksvélarnar, til að liðka fyrir fríðindum hana þeim sem eiga mikla peninga og vilja enn meiri peninga.    Í Bandaríkjum er stétt sem kallast lobbýistar til að sjá um þetta.  Starfsemin byggist á því að þykjast vera vinir ráðamanna, muna eftir því þegar þeir eða makar þeirra eiga afmæli og svo síðast en ekki síst, að greiða í flokksvélina.   það er sennilega þess vegna sem ekkert gengur að birta bókhald stjórnmálaflokkana.   Það er þó virðingavert að einum er ofboðið og er tilbúinn að standa á rétti sínum, gagnvart misvitrum stjórnmálamönnum.   Ég myndi ekki kaupa notaðan bíl af stjórnmálamanni, mér þykir þeir aumkunarverðasta stétt eða minnihlutahópur landsins, sem beita völdum sínum til að skara eld að eigin, eða flokksvélarinnar köku.


Tafir hjá fleirum en IcelandExpress

Ég er búinn að bíða í rúman sólarhring eftir farþegum með vél FI335 frá Bergen.   Nú er staðan þannig að áætlaður komutími er  kl 21 í kvöld (13. júlí) en átti að vera kl 15:45 í gær (12. júlí).  

Það sem vekur undrun mína er að þrátt fyrir mikinn barlóm flugfélaganna, um að nú sé allt í hers höndum vegna olíuverðs og manni finnst eins og flug sé að leggjast af sem ferðamáti, þá er ekki hægt að leigja vél til að flytja farþegana, heldur er það látið dúsa heilu og hálfu sólarhringana á brottfarastaðnum.   Við þetta styttist frítíminn sem fólkið ætlaði sér á áfangastaðnum og flugfélögunum er sennilega alveg sama um það, þótt þau segi annað, því lítið virðast þau leggja á sig til að leysa vandann.


mbl.is Miklar tafir á flugi IcelandExpress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul Ramses ætti að læra á bobbsleða

Það væri ekki svo vitlaust að Paul Ramses lærði á bobbsleða og keppti fyrir íslands hönd á ólympíuleikunum.  Það hefur yfirleitt ekki verið vandi fyrir íþróttafélög að fá dvalarleyfi fyrir íþróttamenn.   Að mínu áliti hafa þeir þjóðinni að engu gagni og aðeins verið til trafala, þar sem meiri hætta er á að íþróttir sjónvarpstöðvanna gangi yfir hefðbundnar dagskrár.   Fræg er bíómynd (og kannski saga) þegar Jamaíka fór að keppa í bobbsleða íþróttinni.   Þar sem við höfum ekki keppnislið í þessari grein, þá gæti Paul Ramses leitt þennan hóp og fengið um leið dvalarleyfi á Íslandi.   Það á að gæta sama jafnræðis fyrir hann og þá íþróttamenn sem hingað hafa komið, annað hvort verði honum leyft að vera á landinu eða þeim vísað úr landi.

Það var reyndar skrítið að ég reyndi nokkuð að finna á netinu undirskriftalistann til stuðnings dvalarleyfi hans og mér var fyrirmunað að finna hann.   Slóð hans kom hvergi fyrir í fréttum né á leitarvél Google.


Undirlægjuháttur og ofbeldishneigð yfirvalda

Í máli vesalings Kenýamannsins Paul Ramses, endurspeglast betur en nokkuð annað, annars vegar ofríki ríkisvaldsins gagnvart venjulegum þegnum, hvort sem það er þessa eða annars lands þegnar og hins vegar undirlægjuhátt gagnvart þjóðhöfðingjum og ríkisstjórnum.  Þar má nefna Falon Gong sem toppaði hvort tveggja, undirlægjuhátt gagnvart kínverskum stjórnvöldum og þeirrar þjóðhöfðingjum og ofbeldi gagnvar Falon Gong friðarsinnum á borð við Tíbetbúa.  Hvað svo rammt að því að umboðsmaður Alþingis gaf stjórnvöldum ofanígjöf vegna þessa, en þeir komast upp með allt og sinna ekki svona átölum.    Mugabe „forseti“ Zimbawe er nú byrjaður að ofsækja sína stjórnarandstæðinga eins og Rames var ofsóttur í Kenýa.   Hvað skyldu nú íslensk eða önnur stjórnvöld gera, jú fordæma þetta og síðan ekkert meira.   Hann veit að hann kemst upp með allt og gerir það sem honum sýnist,  hann þarf hvorki að hafa áhyggjur af íslenskum né öðrum stjórnvöldum, og ekki heldur þótt Ísland komist í öryggisráðið.

Suzuki bílar fyrir Hafnfirðinga

Þannig fór fyrir mér um daginn að ég þurfti að skipta um parkperu í Suzuki bíl sem ég á.  Mér var það lífsins ómögulegt að komast að því hvernig skipt er um auma parkljóssperu.   Brá ég á það ráð að fara í Suzuki umboðið og spyrjast fyrir leyndardóm peruskipta.   Þeir tóku bón minni vel og báðu mig bara að koma með bílinn inn á verkstæðið.   Aðferðin var að skrúfa grillið framan af bílnum og síðan að losa ljósin og þannig var hægt að skipta um perur.  Þar sem þetta er nokkuð mikil vinna miðað við umfang verkefnisins, þá var skipt um allar perurnar.    Perurnar kostuðu kr. 698 ek vinnan kostaði 3.745 eða liðlega 5 sinnum meira.    Síðan þetta gerðist þá hef ég velt því fyrir mé,r að þegar pera fer í stofu í Hafnarfirði hvort hafnfiðringar skipti þá um allar perurnar í stofunni, úr því að hann þarf að fá nágrannann til að snúa húsinu.
Það er alveg makalaust að framleiða bíl, sem er þannig úr garði gerður að ekki er hægt að skipta um peru á hlaðinu heima hjá sér.

Enginn er búmaður nema barma sér, líka útgerðmenn og fiskverkendur

Nú barma útgerðamenn og fiskverkendur sér eins og þeir mest þeir geta.   Þetta gerist alltaf þegar þeir fá ekki að veiða eins mikið og þeir vilja, hversu mikið það gæti nú orðið.   Við Nýfundnaland og Barentshafi hafa menn langa og bitra og beiska reynslu af því að fara ekki eftir því sem hafrannsóknarmenn hafa ráðið.  Og það sem verra er, hérlendis ætla útgerðamenn ekki heldur að læra af þessari bitru reynslu, hvar er upplýsingaflæðið.   Þeir vitna bara í að það ætti síður að fara eftir ráðum Hafró þegar illa árar.    Nú hagar gengismálum þannig að Fiskverkendur ættu að græða á tá og fingri ef eitthvað var að marka það þegar þeir vældu sér eins og stunginn grís þegar krónan var sem sterkust.
Annars sagði  Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró að ekki væri  mikil deila um það að mikið væri um þorsk, heldur væri þetta spurning um samsetningu hans við uppbyggingu sterks þorskstofns, ekkert heyris frá útgerðamönnum um það.


Deyjandi miðborg

Í mogganum í dag er frétt af enn einni versluninni í miðbænum sem er að loka.

Í nútíma samfélagi þá vilja menn komast á sína áfangastaði með einföldum og skjótum hætti, þ. e. a. s. á einkabíl, sem bíður fyrir utan hjá manni.   Þess vegna leita menn að þeim þjónustustöðum sem hafa greitt bílaaðgengi og næg bílastæði.   Hvorugt af þessu er í miðbænum.   Þess vegna fara alltaf færri og færri í miðbæinn til að versla.  Eftir sitja svo knæpur, því þeirra viðskiptavinir eru ekki á bílum.    Borgaryfirvöld hafa verið að leyfa byggingu hvers stórhýsisins á fætur öðru, án þess að laga bílasamgöngur eða bílastæði.   Er nema von að verslun fari í úthverfin og nágrannasveitafélögin sem sjá sér hag í þessari óstjórn Reykjavíkurborgar

Sjá einnig blogg  Berg Thorberg


Íbúðalánasjóður og Bankasamkeppnin

Nú virðast samtök banka ætla að ná í gegn eina aðilanum sem veitti þeim samkeppni, þ. e. a. s. íbúðalánasjóði.   Það væri sök sér ef hann væri ekki, ef það væri samkeppni á bankamarkaðnum, en því miður þá einkennist hann af fákeppni ef ekki af beinu samráði.  Það sannast á öllum verðlagningum bankanna, þær virðast allar hafa verið teknar í Öskjuhlíðinni eins og grænmetisverðið var sameiginlega ákveðið forðum daga, af byrjum grænmetis.   Er von að bankarnir hamist í þeim eina sem veitir þeim samkeppni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kristinn Sigurjónsson

Höfundur

Kristinn Sigurjónsson
Kristinn Sigurjónsson

Hef mikinn áhuga á stjórnmálum, en held mig á hliðarlínunni og leyfi mér að finna að öllu og öllum.

kristinnsig@netscape.net 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...birna
  • Wernerssonum líklega úthýst
  • ...rlag_730803
  • visitolur_3

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband